Tvær eyjar

Við erum Federico og Ingibjörg, búum á Íslandi en ræturnar ná til Sikileyjar- nánar tiltekið Palermo. Í um áratug höfum við byggt upp líf saman hér í norðri án þess þó að missa tengslin við birtuna, bragðið og minningarnar frá suðrinu.
Við ferðumst oft til Sikileyjar með börnunum okkar, heimsækjum fjölskylduna, hlúum að rótunum og ræktum tengslin við hina eyjuna sem er einnig „heim“. Á þessum ferðum miðlum við menningu hennar, sögunum og birtunni áfram til næstu kynslóðar.
Með koffortið fullt af minningum og hjartað opið fyrir nýjum ævintýrum, fóru ferðalögin milli Íslands og Sikileyjar að vefa saman draum- að færa brot af suðrinu hingað norður.
Draumurinn okkar ber nafnið „Iddu“, sem er sikileyska og þýðir „hann“. Iddu er notað um Stromboli, eldfjallið sem vakir yfir eldfjallaeyjunum „Isole Eolie“ norður af Sikiley- yfirleitt sagt með lotningu í röddinni.
Sikiley og Ísland eru stærstu eldfjallaeyjur Evrópu — mótaðar af eldi, skilgreindar af fegurð, náttúru og einstökum karakter hvor um sig. Iddu er þráðurinn þarna á milli. Þessi þráður kemur fyrir í sögu Jules Verne Ferðin að miðju jarðar en hún hefst við Snæfellsjökul á Íslandi og endar á Stromboli.
Saga okkar fylgir þessari leið — frá Íslandi til Sikileyjar — þar sem við brúum tvo ólíka heima.